Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Mesta og misheppnaðasta sjálfsmorðsárás sögunnar

Fyrstu áratugi 20. aldar voru Japanir á hraðferð inn í iðnvæddan nútíma og voru staðráðnir í að koma sér með góðu eða illu í hóp stórvelda heims. Og þangað komust þeir raunar þegar þegar um 1920 en stefndu þá enn hærra og vildu verða allsráðandi við Kyrrahafið þegar líða tæki á öldina.

Þá skorti hins vegar flest hráefni, eldsneyti og þess háttar. Á þriðja og fjórða áratugnum litu þeir svo á að eina leiðin til að útvega sér þau nauðsynlegu hráefni og þá markaði sem staða þeirra sem stórveldis krafðist væri stríð.

Að leggja undir sig aðrar þjóðir og ræna auðlindum þeirra.

Auk þess sagði til sín sá forni hernaðarandi sem hafði hrannast upp í huga þjóðarinnar gegnum aldirnar.

Það var álitið gott og göfugt að berjast og stríða, drepa og deyja.

Þetta endaði með því að Japanir glöptust til að fara með stríði á hendur Bandaríkjunum í lok árs 1941 þegar þeir gerðu loftárásina frægu á Pearl Harbor og freistuðu þess að slá út allan bandaríska Kyrrahafsflotann með einu þungu höggi.

Árásin á Pearl Harbor var til marks um furðulega glámskyggni Japana. Þeir ímynduðu sér í fyrsta lagi að ef þeim tækist að hamra svolítið á Bandaríkjamönnum í fyrsta áfanga stríðsins, þá myndu hinir síðarnefndu fljótt lyppast niður og semja um frið sem væri Japönum hagstæður.

Þeir tiltölulega fáu Japanir sem hleypt höfðu heimdraganum og þekktu til Bandaríkjamanna reyndu að sannfæra hrokagikkina heima fyrir um að þetta myndi aldrei gerast, en allt kom fyrir ekki.

Og í öðru lagi voru Japanir þvílíkir bjánar að þeir létu sér detta í hug að þó stríðið drægist eitthvað á langinn, þá gætu þeir staðist iðnframleiðslu, tækniyfirburðum og hernaðariðnaði Bandaríkjanna snúning.

Vitanlega vissu þeir að þeir gætu aldrei framleitt jafn mikið og Bandaríkjamenn, en þeir töldu til dæmis að þeir gæti haldið flotastyrk Bandaríkjanna í skefjum með því að smíða fáein tröllvaxin orrustuskip, með stærri fallbyssur en nokkur skip önnur.

Þessi skip gætu hvert um sig jafnast á við nokkur orrustuskip Bandaríkjamanna, sem fengju þannig ekki notið fjöldans.

Laust fyrir 1940 skipulögðu þeir því byggingu fimm risa orrustuskipa sem áttu að gegna þessu hlutverki í þeirri styrjöld við Bandaríkin sem Japanir litu þá þegar á sem óhjákvæmilega.



Ekki vantaði byssurnar um borð í Yamato og Musashi.

Þetta voru sannkallaðir risar – 70 þúsund tonn að þyngd og 263 metrar að lengd.

Það eru 3,6 Hallgríms- kirkjuturnar, svo notuð sé algeng mælieining Tímans rásar!

Nefna má til samanburðar að Bismarck og Tirpitz, stolt þýska flotans, voru 50 þúsund tonn, og 250 metrar að lengd.

Og þýsku skipið höfðu 8 fimmtán tommu fallbyssur að sínum aðalvopnum, en japönsku risaorrustuskipin voru vopnuð 9 rúmlega átján tommu fallbyssum.

Fallbyssukúlur þeirra voru 46 sentímetrar í þvermál!

Þessi japönsku skip voru einfaldlega lang öflugustu orrustuskip í heimi.

Og það var meira að segja hafinn undirbúningur að smíði nokkurra ennþá stærri orrustuskipa með ennþá stærri fallbyssur.

En þá kom babb í bátinn. Strax í fyrstu sjóorrustunum á Kyrrahafi árið 1942 kom í ljós það sem ýmsir framsýnir menn þóttust raunar hafa séð fyrir.

Orrustuskip – hin stóru og þungu fallbyssuvirki hafsins – hversu stór og glæsileg sem þau töldust vera, þau voru orðin gjörsamlega úrelt.

Fjarlægðir á Kyrrahafinu voru svo miklar að í sjóorrustum kom það oftar en ekki fyrir að orrustuskip komust ekki einu sinni í sjónmál við óvininn, hvað þá skotfæri.

Orrusturnar voru að mestu háðar í lofti, með flugvélum af flugvélamóðurskipunum – sem tóku nú við af orrustuskipunum sem öflugustu herskip í heimi.

Hið fyrsta af risaorrustuskipum Japana, Yamato, tók til dæmis þátt í mjög mikilvægri sjóorrustu við Midway nálægt Hawaii-eyjum í júní 1942, en kom ekki að neinu gagni. Það sem eftir var stríðsins þvældist Yamato aðallega fram og til baka um Kyrrahafið eða lá einfaldlega í flotahöfninni í Hírósjíma, þar sem var aðalbækistöð japanska flotans.

Sama var að segja um systurskipið Musashi, sem var sama tröllið og jafn öflugt, en jafn gagnslaust. Allt árið 1943 og meiri partinn af 1944 voru bæði þessi ógnarsterku orrustuskip, sem Japanir höfðu lagt í sig svo mikið af peningum og orku, meira og minna í höfn og tóku lítinn sem engan þátt í stríðinu.

Japanir áttuðu sig auðvitað á því sjálfir hvílík mistök þeir höfðu gert með smíði þessara skipa, og þriðja skipið, Shinano, var því ekki fullklárað sem orrustuskip, heldur var því í flýti breytt í flugvélamóðurskip.

Og undirbúningi að smíði hinna risaskipanna tveggja af Yamato-gerð var einfaldlega hætt.

Þegar leið á árið 1944 mátti öllum vera ljóst að stríðið var tapað fyrir Japani.

Framleiðslugeta Bandaríkjanna var komin á fulla ferð og nokkur ný flugvélamóðurskip sigldu út á Kyrrahafið í hverjum einasta mánuði, auk annarra herskipa. Á meðan misstu Japanir hvert skip sitt af öðru, flugvélum þeirra var beinlínis slátrað, og svo framvegis.

En það hvarflaði þó ekki að þeim að gefast upp.

Yamato og Musashi voru þá loks send til orrustu í október 1944 og tóku þátt í gífurlegum sjóorrustum sem stóðu við Filippseyjar, sem sameiginlega eru kenndar við Leyte-flóa. Þá voru Bandaríkjamenn að gera innrás á eyjarnar og Japanir vildu allt til vinna að komast að herflutningaskipum þeirra.

Til þess notuðu þeir næstum hvert einasta herskip sem enn var á floti.

Þarna fékk Yamato að nota hinar feiknalegu fallbyssur sínar í fyrsta og eina skiptið, og átti þátt í að sökkva einu litlu bandarísku flugvélamóðurskipi og einum tundurspilli.

En þegar flotadeildin sem Yamato var partur af var í þann veginn að brjóta sér leið gegnum varnarlínur bandaríska flotans, að flutningaskipunum sem voru að flytja innrásarlið til Filippseyja, þá urðu japönsku sjóliðsforingjarnir hræddir við eitthvað, og sneru frá – Bandaríkjamönnum til mikils léttis.

Sú var tíð að flotaforingjar hefðu fengið vatn í munninn við að sjá þessi tvö öflugu orrustuskip saman á mynd - systurskipin Yamato og Musashi. En þegar á reyndi í síðari heimsstyrjöld kom í ljós að svona tröllaukin fallbyssuskip komu eiginlega ekki að neinum notum.

Og flutningaskipin skiluðu innrásarhernum á land, og Yamato hrökklaðist heim.

Musashi var ekki eins heppið. Flugvélar frá bandarískum flugvélamóðurskipum náðu í skottið á því og sökktu því 24. október 1944. Það þurfti 17 sprengjur og 19 tundurskeyti frá flugvélum til að sökkva skipinu, og af 2.300 manna áhöfn dóu rúmlega 1.000.

Átján bandarískir flugmenn týndu lífi í árásunum á Musashi.

Í nóvember var svo verið að færa hið tröllaukna fyrrum systurskip Yamato og Musashi, flugvélamóðurskipið Shinano, milli hafna í Japan, en það var þá hér um bil tilbúið. Þá læddist að skipinu bandarískur kafbátur og hæfði það með fjórum tundurskeytum.

Flýtirinn við breytingarnar á skipinu sagði til sín, hönnunin reyndist vera misheppnuð og Shinano þoldi ekki skeytin fjögur. Skipinu hvolfdi á skömmum tíma.

Af 2.400 manna áhöfn fórust 1.400 manns.

Þá var aðeins Yamato eftir og lá í höfn næsta hálfa árið meðan snara Bandaríkjamanna þéttist æ fastar að hálsi Japana. Enda áttu Japanir varla olíu lengur til að halda skipinu úti.

Þann 1. apríl 1945 stigu Bandaríkjamenn svo á land á eyjunni Okinawa, sem telst vera ein af hinum eiginlegu Japanseyjum, þótt hún sé um 640 kílómetra frá meginlandi Japans.

Ljóst var að Japanir myndu berjast til síðasta manns, nú þegar Bandaríkjamenn höfðu stigið fæti sínum á japanska grund, en jafnljóst mátti vera að baráttan var vonlaus.

Eftir að hafa verið barðir sundur og saman af Bandaríkjamönnum samfleytt í næstum þrjú ár, þá höfðu Japanir nú hvorki flotastyrk né flugher til að koma í veg fyrir að Bandaríkjamenn settu ógrynni liðs á land á Okinawa.

Þarna yrði um að ræða endurtekningu á orrustunni um Iwo Jima sem stóð í febrúar og mars 1945, en þá vörðust japanskir hermenn af ægilegu kappi í fylgsnum sínum á landi, en fengu engan stuðning hvorki af hafi né úr lofti.

Eftir að hafa sigrað Japan í stríðinu ákváðu Bandaríkjamenn að leyfa Híróhító keisara að halda völdum til að reyna að viðhalda svolitlum stöðugleika í hinu gjörsigraða og sundurbarða landi. Til að réttlæta fyrir sínum eigin mönnum að þessi leiðtogi í árásarveldinu Japan fengi að halda völdum, þá hentaði Bandaríkjamönnum að halda því fram að Híróhító hefði einungis verið valdalaus silkihúfa í Japan, en engan eiginlega hlut átt að stríðinu. Þetta var fjarri öllum sanni. Híróhító var að vísu andvígur stríðinu upphaflega, en eftir að það skall á var hann ódeigur að hvetja herforingja sína áfram og krefjast þess að ævinlega skyldi barist til síðasta manns. Þegar honum var sagt frá undirbúningi flughersins fyrir hina væntanlegu innrás Bandaríkjamanna á Okinawa, þá spurði Híróhító hvattyrtur: "En flotinn? Ætlar hann ekki að taka neinn þátt í vörnum eyjarinnar?" Það var þá sem feigðarför orrustuskipsins Yamato var ákveðin - til að geðjast keisaranum. Til þess þurfti áhöfn Yamato að fórna lífinu.

Í algjörri örvæntingu ákváðu japanskir flotaforingjar að senda nú allt það lið sem þeir áttu eftir til að verja Okinawa.

Það var orrustuskipið Yamato og fáein lítil fylgdarskip.

Öllum var fulljóst að þetta var sjálfsmorðsleiðangur. Yfirburðir Bandaríkjamanna í lofti og á láði voru svo algjörir að Yamato ætti ekki minnsta möguleika á að sleppa úr þeim hildarleik sem skipinu var nú stefnt í.

Enda gerðu áætlanir ekki ráð fyrir því.

Hernaðaráætlun Japana miðaði að því að reyna að bruna með Yamato gegnum múra bandaríska flotans kringum Okinawa, sigla því á fullri ferð upp í fjöru og nota síðan fallbyssurnar stóru til að skjóta á liðsflutningaskip Bandaríkjamanna.

Hið stolta herskip átti að enda ævi sem strandvirki.

Þegar svo væri búið að sprengja Yamato í tætlur átti það sem eftir var af áhöfninni að ganga til liðs við varnarlið Okinawa og deyja þar til heiðurs fósturjörðinni og keisaranum.

Rétt er að geta þess að þessi áætlun var mjög umdeild meðal japanskra flotaforingja. Mörgum þeirra fannst að vonum að þarna væri bara verið að kasta á glæ mannlífum og ekki síður dýrmætu eldsneyti.

Eldsneytisskorturinn var þá farinn að valda stríðsrekstri Japana mjög miklum erfiðleikum.

Um tíma leit út fyrir að áhrifamiklir flotaforingjar myndu fá yfirstjórn flotans ofan af þessari vitleysu, en þegar mönnum vað ljóst að keisarinn ætlaðist til þess að flotinn legði sitt af mörkum við vörn Okinawa, þá létu allir undan.

Um fjögurleytið síðdegis þann 6. apríl 1945 lagði Yamato úr höfn. Eitt létt beitiskip og tæpur tugur tundurspilla fylgdu tröllinu í sinn hinsta leiðangur. Bandarískir kafbátar og flugvélar fylgdust með siglingunni frá byrjun.

Og Bandaríkjamenn ætluðu varla að trúa því að þeim væri fært stærsta orrustuskip heims svona á silfurfati.

Bandarískar flugvélar byrjaðar að láta sprengjum rigna yfir Yamato sem þegar hefur orðið fyrir skemmdum.

Um klukkan 12.30 daginn eftir, 7. apríl,  hófst árásin á Yamato sem þá var auðvitað hvergi nærri Okinawa. Flugvélar frá átta bandarískum flugvélamóðurskipum réðust í þremur stórum bylgjum á japönsku skipin, og þar sem Japanir höfðu engar flugvélar sér til verndar gátu bandarísku vélarnar hagað árásum sínum eins og þeim best hentaði.

Þótt Yamato væri beinlínis troðfullt af loftvarnarbyssum, þá náðu hinar japönsku skyttur um borð í orrustuskipinu og hinum japönsku skipunum aðeins að skjóta niður 12 bandarískar flugvélar.

Tíu bandarískir flugmenn týndu lífi. Það var nú allur kostnaðurinn við að sökkva öflugasta orrustuskipi heimsins.

Á móti kom að Japanir misstu fjóra af tundurspillum sínum, létta beitiskipið Yahagi og svo náttúrlegahið mikilfenglega Yamato.

Þetta öflugasta en um leið úreltasta orrustuskip heims þoldi eitthvað um tíu tundurskeyti og átján sprengjur áður en því var öllu lokið.

Klukkan 14.23 var skipið bersýnilega á síðasta snúningi og farið að hallast mikið. Þá varð ofboðsleg sprenging um borð – sagt er að hvellurinn hafi heyrst í 200 kílómetra fjarlægð, og sprengjustrókurinn náði rúmlega sex kílómetra hæð.

Og skipið sökk á skammri stundu.

Mynd tekin úr bandarískri flugvél nokkrum sekúndum eftir sprenginguna um borð í Yamato. Sprengjustrókurinn byrjaður að teygja sig til himins.

Ekki er alveg ljóst hversu margir voru um borð í Yamato í þessari feigðarför, en líklega voru þeir um 3.000. Aðeins 280 var bjargað.

Og ekkert af þessu breytti auðvitað neinu, hvorki fyrir varnir Okinawa né hina fyrirsjáanlegu uppgjöf Japana.

Þess má geta að fyrir nokkrum gerðu Japanir mikla stórmynd um Yamato og þessa síðustu ferð skipsins – hana má fá leigða í Aðalvídeóleigunni á Klapparstíg.

Ég leifi mér að taka upp af og segja frá fábærum pistli eftir Illuga Jakobssyni eins og sjá má á færslu hans á Eyjunni Tímans Rás linkur hér.


Höfundur

Rauða Ljónið
Rauða Ljónið

Rautt ljónið er göfugt . Red Lion is noble.

Segðu fólki það sem það þegar veit og skilur og þér verður þakkað.

Segðu fólki það sem það ekki veit og skilur og þú verður fordæmdur.

 Lyginn getur ferðast um allan heiminn, á meðan sannleikurinn er að fara í skóna.

Sigurjón Vigfússon

Nýjustu myndir

  • ...au_anesvita
  • ...aaa
  • ...6239_n_1_jl

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband