19.2.2010 | 22:03
Ódýr hugmynd og dýrkeyp
Það varð Íslendingum til happs í miklum efnahagserfiðleikum fyrir liðlega 40 árum, að þá skyldu hefjast framkvæmdir við álverið í Straumsvík.
Álverið skilar í dag Landsvirkjun mörgum milljörðum árlega í svo til hreinan gróða, veitir á annað þúsund manns atvinnu með beinum eða óbeinum hætti, kaupir vörur og þjónustu af íslenskum aðilum fyrir fjárhæð sem slagar hátt í tvöfaldan rekstrarkostnað Ríkisútvarpsins, borgar hærri skatta en flest fyrirtæki hér á landi, og hefur nýverið ákveðið að ráðast í fyrsta hluta stórrar fjárfestingar sem í heild mun kalla á um 900 ársverk.
Það er sérkennilegt að í efnahagserfiðleikum okkar nú skuli koma fram það sjónarmið, að það skynsamlegasta í stöðunni sé að leggja þetta fyrirtæki niður.
Virkjum ódýrt, lokum Straumsvík var fyrirsögn á nýlegri blaðagrein eftir Dr. Gísla Hjálmtýsson, framkvæmdastjóra Thule Investments. Gísli var í kjölfarið boðaður í sjónvarpsþáttinn Silfur Egils til að segja nánar frá hugmynd sinni.
Kjarninn í málflutningi Gísla er þessi: Íslendingar séu að gefa stóriðjunni orkuna, sem sjáist á því að öll orkufyrirtækin séu í raun gjaldþrota. Skynsamlegra væri að selja orkuna minni kaupendum á miklu hærra verði. Þetta sé hægur vandi; enginn hörgull sé á kaupendum sem tilbúnir séu að greiða margfalt hærra verð, enda geri þeir það annars staðar í heiminum. Nú um stundir sé erfitt að fjármagna nýjar virkjanir og því sé upplagt að útvega orku með því að loka álverinu í Straumsvík. Álverið noti þrátt fyrir allt ekki svo mikla orku að erfitt geti verið að finna kaupendur að henni. Mögulegir kaupendur séu meðal annars gagnaver, gróðurhús, efnaiðnaður og þörungaræktun. Gísli segir: Ég bara trúi því ekki að það sé neitt stórvandamál að selja alla þessa orku.
Vafalaust sjá flestir í hendi sér hversu fráleitt er að leggja til að loka einum stærsta og öflugasta vinnuveitanda landsins. Þó er rétt að bregðast við ýmsu í grein Gísla til að koma í veg fyrir að ranghugmyndir skjóti rótum.
Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni fyrir Íslendinga ef fleiri öflugir kaupendur að orkunni gefa sig fram. Hins vegar er staðreynd að þeir hafa verið fáir og strjálir og flestir sóst eftir fremur lítilli orku.
Frá því að álverið í Straumsvík hóf starfsemi liðu næstum 30 ár þar til næsta álver var reist. Á þeim tíma kom aðeins fram einn annar stórnotandi á raforku og hann var í meirihlutaeigu íslenska ríkisins (Járnblendiverksmiðjan).
Stjórnvöld voru fyrir nokkrum misserum gagnrýnd fyrir að hafa ráðist í söluherferð erlendis með því að auglýsa að hér væri eitt lægsta orkuverð í heimi. Hvað sem líður þeirri gagnrýni bendir þetta ekki til þess að hér hafi ekki verið þverfótað fyrir áhugasömum kaupendum.
Verne Holdings hefur samið við Landsvirkjun um kaup á 210 GWh rafmagns vegna gagnavers. Magnið er um 7% (einn fjórtándi) af því sem álverið í Straumsvík notar og er það þó minnsta álver landsins.
Orkan sem gagnaverið þarf er nú þegar til hjá Landsvirkjun sem umframgeta í kerfinu. Það þarf því ekki einu sinni að virkja til að útvega hana, hvað þá að loka þurfi álverinu til að greiða fyrir þessari starfsemi.
Það er bæði göfugt og góðra gjalda vert að stefna að aukinni ylrækt hér á landi. Til þess að tvöfalda umfang hennar hér á landi þyrfti aðeins um 2% af raforkunni sem álverið í Straumsvík notar. Með öðrum orðum: Álverið notar fimmtíu sinnum meira rafmagn en allir garðyrkjubændur á Íslandi samanlagt. Þetta sýnir glöggt hve fjarstæðukennt er að ímynda sér að loka þurfi álverinu til að hægt sé að auka þessa starfsemi.
Samkvæmt fréttum fjölmiðla um orkuverð til gagnavers er það rangt hjá Gísla Hjálmtýssyni að þau séu reiðubúin að greiða margfalt hærra verð en álver. Verðið til garðyrkjubænda er heldur ekki margfalt hærra, þótt sumir fjölmiðlamenn standi í þeirri trú.
Fullyrðingar um gjafverð til álvera á Íslandi standast ekki með hliðsjón af þeirri niðurstöðu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands að þau greiði nálægt meðalverði álvera í heiminum.
Við verðsamanburð þarf að hafa í huga að það er ekki sama hvernig rafmagn er afhent. Álverið í Straumsvík þarf sjálft að gera ráðstafanir með þar til gerðum búnaði sem tryggir að miklu minni orka tapast við flutning en almennt gerist. Álverið sér líka sjálft um að lækka spennuna á rafmagninu og alla dreifingu. Hvort tveggja felur í sér minni tilkostnað seljandans, sem hlýtur að endurspeglast í verðinu.
Álverið notar rafmagn sem er á við alla heimilisnotkun í milljón manna borg. Seljandinn afhendir þetta gríðarlega magn á einum stað, á einu bretti, eins og það kemur af kúnni, með lágmarkstilkostnaði. Og álverið skuldbindur sig til að kaupa þetta magn allan sólarhringinn, allan ársins hring, þannig að framleiðandinn þarf aldrei að sitja uppi með óselda umframgetu í kerfinu. Álverið hefur ekki rétt til að skila hluta rafmagnsins, eins og ákvæði er um í samningi gagnaversins.
Hvað fjárhagsstöðu orkufyrirtækjanna snertir hefur stóryrðum þar um verið skilmerkilega svarað af þeirra hálfu, samanber til dæmis vef Landsvirkjunar 28. október og 11. janúar, og vef Orkuveitunnar 25. nóvember.
Fullyrðingum um lága arðsemi hefur Landsvirkjun einnig svarað og meðal annars bent á að meðalarðsemi eigin fjár á árunum 2003-2007 hafi verið 13% eða svipuð og hjá Marel og Össuri.
Sem fyrr segir eru það tvímælalaust góðar fréttir fyrir Ísland ef umtalsverður og raunverulegur áhugi reynist vera fyrir auknum orkukaupum. Það stangast á engan hátt á við starfsemi álversins í Straumsvík. Fráleitt er að loka þurfi álverinu til að rýma til fyrir slíku.
Við hljótum að stefna að því að skapa fleiri störf, ekki að fækka þeim, og að því vinnur eigandi álversins í Straumsvík. Sem þátt í því má nefna að viðskipti okkar við innlend verkfræðifyrirtæki á síðasta ári námu um einum milljarði króna.
Sumir gagnrýna að hér á landi hafi ríkt ofurtrú á stóriðju sem töfralausn á öllum vanda. Allt eins er ástæða til að vara við ofurtrú á nýjar töfralausnir sem færi okkur auðfenginn skyndigróða.Ólafur Teitur Guðnason
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Kjaramál | Facebook
Nýjustu færslur
- 21.10.2020 HEIMILDIR UM ELDGOS Á REYKJANESSKAGA
- 12.9.2019 Ugglaust koma fleiri þættir til sem valda þessum erfiðleikum ...
- 1.3.2018 Svæsnustu spillingarbælin.
- 19.8.2016 Ég missti barnabarnið hana Karen Björgu fyrir þrem mánuðum.
- 4.3.2014 Menntakerfið okkar er úrelt og hentar alls ekki öllum.
- 21.2.2014 Vigdís Hauksdóttir var höfð að háði og spotti út af Evrópumál...
Eldri færslur
2020
2019
2018
2016
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Vinir og vandamenn
Tenglar á síður vina og vandamanna
-
Rannveig Vigfúsdóttir
Rannveig Gamla. -
Við erum Ljónabræður, afabörnin
Bjarki Leó -
Við erum Ljónabræður,afabörnin
Benjamín Leó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.